Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Daglega starfa í Garðaskóla um 550 manns. Mikilvægt er að allir gangi vel um húsnæði og tæki skólans. Skólabragur á að einkennast af tillitssemi og kurteisi, á göngum og í kennslustofum á að vera friður og ró. Starfsmenn og nemendur umgangast hverjir aðra af virðingu þannig að öllum geti liðið vel í skólanum. Ætlast er til þess að nemendur og kennarar skilji vel við kennslustofur og vinnustöðvar í skólanum: slökkvi ljós, gangi frá rusli og raði borðum og stólum.

Skófatnaður, yfirhafnir og höfuðföt

Í skólanum er ekki gengið á útiskóm innandyra né í yfirhöfnum. Við hvetjum nemendur til að nota inniskó í húsnæði skólans. Allir nemendur í Garðaskóla fá afnot af skáp með talnalás til að geyma fatnað, skólatöskur, bækur og námsgögn sem ekki er verið að nota. Í starfi Garðalundar eru gerðar undanþágur varðandi klæðnað og skófatnað í húsnæði skólans.

Mataraðstaða - matsala 

Matsala nemenda býður upp á fjölbreyttar neysluvörur á hagstæðu verði. Sérstök áhersla er lögð á góða umgengni í mötuneyti nemenda og að hver og einn gangi vel frá eftir sig. Nemendur eiga eingöngu að matast á göngum neðri hæðar og í blómaskála og gryfju þar sem áhöld og húsgögn eru til staðar. Nemendur eiga að ganga frá matarleifum og umbúðum í þar til gerðar ruslafötur að lokinni máltíð. Skilagjaldskyldum umbúðum skal henda í þar til gerðan gám í matsalnum. Markmið okkar er að skólinn sé ávallt snyrtilegur og þægilegur íverustaður.

Nemendur eiga að vera í skólanum á skólatíma

Nemendur eiga að vera í skólanum á skólatíma. Ætlast er til þess að nemendur séu í skólabyggingunni eða á skólalóð á skólatíma. Nemendur geta búist við því að foreldrum sé gert viðvart ef starfsmenn skólans verða varir við tíðar ferðir nemenda frá skóla (s.s. verslunarmiðstöð eða sjoppu).

Reykingar eru stranglega bannaðar

Reykingar eru stranglega bannaðar. Reykingar í skólanum, félagsmiðstöðinni og á lóð skólans eru óheimilar samkvæmt landslögum. Þeir fáu nemendur sem enn reykja þurfa að venja sig á að reykja ekki á starfstíma skóla og félagsmiðstöðvar. Best er að sjálfsögðu að þeir hætti að reykja.

Undirgöng við Vífilsstaðaveg teljast til skólalóða Garðaskóla og Flataskóla. Það svæði á því að vera reyklaust beggja vegna vegarins. Nemendum sem  staðnir eru að reykingum á lóð skólans er vísað frá skóla og félagsmiðstöð á meðan mál þeirra er tekið fyrir.

Snjalltæki

Snjalltæki má nota á göngum skólans og skólalóð. Nemendum ber að sýna ábyrgð í notkun tækjanna og leggja þau til hliðar við upphaf kennslustunda. Í kennslustundum stýrir kennari notkun snjalltækja þannig að þau þjóni náminu. Í prófreglum skólans kemur skýrt fram að snjalltæki nemenda eru aldrei leyfð í prófstofu. Ströng viðurlög gilda um brot á reglu um notkun snjalltækja í prófum.

Skólabjalla

Skólabjalla. Engin bjalla hringir við upphaf og endir kennslustunda. Nemendur eiga að ganga með rétt stillt úr á sér og víðs vegar um skólann eru veggklukkur.

Nemendaskápar

Ætlast er til að allir nemendur Garðaskóla noti nemendaskápa til þess að geyma yfirhafnir, skófatnað, íþróttatöskur, höfuðföt og námsgögn sem ekki er verið að nota. Í skólanum eru fáir snagar og lítið hillupláss fyrir skó.

Í upphafi vetrar eru allir skápar hreinir og yfirfarnir. Nemendur fá til afnota talnalás með dulkóða. Í sumum tilvikum verða nemendur að deila skáp með öðrum. Nemendur mega ekki undir neinum kringumstæðum gefa öðrum nemendum upp talnalykil skápalássins. Óheimilt er að nota aðra lása en þá sem skólinn útvegar. 

Nemendur bera ábyrgð á þeim skáp og lás sem þeir hafa til afnota og skila þeim í góðu ásigkomulagi, hreinum og snyrtilegum að vori. Ef vanhöld verða á umgengni um skápa og tap á lásum áskilur skólinn sér rétt til að innheimta gjald af nemanda/foreldrum allt að kr. 2000.- Umsjónarkennarar yfirfara ástand skápa með nemendum að vori til. Ef efndurnýja þarf lás þarf nemandi að kaupa hann á  1000 kr. Nemandi getur misst rétt sinn til skápanotkunar vegna slæmrar umgengni (veggjakrot, rispur, sóðaskapur). Ef nemendur verða uppvísir að skemmdum á nemendaskápum verða þeir (og foreldrar) krafðir um greiðslur vegna tjónsins.

Skápar eiga alltaf að vera lokaðir og læstir þegar nemandi er ekki að ná í eða setja hluti í skápinn. Nemendur eiga ekki að skilja skólatöskur og önnur verðmæti eftir í skólastofum eða á göngum skólans, slíkt á að geymast í nemendaskáp.

Garðaskóli ábyrgist skemmdir á skápunum af utanaðkomandi ástæðum.

Nemendur geta hvenær sem er átt von á að skápur þeirra verði skoðaður í fylgd starfsmanns skólans.

Skólinn áskilur sér rétt til leitar í nemendaskápum ef nauðsyn krefur s.s. ef grunur leikur á að öryggi nemenda sé í húfi eða að ólögmætir hlutir leynist í nemendaskáp.

MUNIÐ – Skáparnir eiga ávallt að vera lokaðir og læstir þegar eigandi er ekki nærri.

English
Hafðu samband