Skólareglur Garðaskóla
-
Við berum ábyrgð á eigin hegðun og framkomu
Í Garðaskóla njótum við frelsis til athafna sem ekki skaða okkur sjálf né samferðamenn okkar. Við temjum okkur ábyrgðarfulla hegðun þar sem við rækjum skyldur okkar og temjum okkur sjálfsstjórn.
-
Við göngum snyrtilega um og stuðlum að sjálfbærni í skólanum okkar
Við neytum matar og drykkjar aðeins á neðri hæð skólans. Við göngum frá matarleifum, umbúðum og öðru rusli á viðeigandi hátt. Matur og drykkur er ekki leyfður í kennslustofum og á efri hæðum skólans. Á göngum efri hæða er vinnuaðstaða.
-
Við klæðumst hvorki yfirhöfnum né útiskóm í starfinu innandyra
Við geymum hlífðarfatnað og skó í nemendaskápum. Þeir sem geyma skófatnað í skóhillum í anddyrum gera það á eigin ábyrgð. Við notum inniskó – það verndar fætur (og sokka) og ver okkur gegn gólfkulda.
-
Við sýnum ábyrgð við notkun snjalltækja og leggjum þau til hliðar við upphaf kennslustunda
Snjalltæki má nota á göngum skólans og skólalóð. Í kennslustundum stýrir kennari notkun snjalltækja þannig að þau þjóni náminu. Í prófreglum skólans kemur skýrt fram að snjalltæki nemenda eru aldrei leyfð í prófstofu. Ströng viðurlög gilda um brot á reglu um notkun snjalltækja í prófum. -
Við mætum stundvíslega í skólann og stundum nám af kappi í kennslustundum
Ein meginforsenda árangurs í námi er áhugi og ástundun. Góð ástundun er ávísun á að nemandi nái sínu besta úr skólagöngu sinni. Stundvísi er dygð sem leiðir til farsældar í námi og starfi. -
Við ástundum heilbrigðar lífsvenjur, snæðum holla fæðu og hreyfum okkur reglulega
Garðaskóli er heilsueflandi skóli sem styður nemendur til heilbrigðra lífs- og neysluhátta. Við höfnum neyslu ávanabindandi efna svo sem tóbaks, áfengis og kannabisefna. Reykingar á rafrettum falla í sama flokk þar sem í þeim felst hermihegðun sem vísar til reykinga ávanabindandi efna og útilokað er fyrir starfsmenn að sannreyna innihald þeirra vökva sem notaðir eru í rafrettunum.
-
Við brotum á skólareglum eru viðurlög
Á heimasíðu skólans er kaflinn Samskipti og skólaandi sem geymir lýsingar á ásættanlegri og óásættanlegri hegðun og þeim mörkum sem þar liggja á milli. Þegar nemandi fer út fyrir ásættanleg mörk í hegðun taka við vel skilgreind viðbrögð og afleiðingar sem í öllum tilvikum beinast að því að nemandi nái aftur stjórn á eigin hegðun og geri áætlun um hvernig hann nái því markmiði. Í öllum tilvikum eru agabrot unnin í samvinnu nemanda, foreldra og starfsmanna skólans.
Skólareglur þessar voru endurskoðaðar og samþykktar á fundi skólaráðs Garðaskóla 12. mars 2018. Nánari útlistun á skólabrag og vinnubrögðum er að finna á vefnum Samskipti og skólaandi.
Skólastjóri
Skólareglurnar má nálgast hér á PDF