Marklínur
Í Garðaskóla setjum við skýr mörk – marklínur – á milli þeirrar hegðunar sem er ákjósanlegt og eðlileg og þeirrar hegðunar sem ekki er hægt að sætta sig við.
Æskileg og eðlileg hegðun
Þegar við lýsum daglegri hegðun nemenda Garðaskóla er í langflestum tilvikum um að ræða ásættanlega hegðun. Nemendur mæta stundvíslega og vel undirbúnir í skólann. Þeir eru reiðubúnir til að takast á við krefjandi verkefni, taka tilsögn og taka virkan þátt í viðfangsefnum kennslustunda. Nemendur ganga vel um skólann sinn og láta sér annt um að samskipti í skólanum séu vinsamleg og til þess fallin að auka samkennd og öryggi nemenda og annarra sem starfa í skólanum. Sama á við um starfsemi félagsmiðstöðvar. Nemendur sýna sjálfum sér og öðrum virðingu með framkomu sinni, orðum og gjörðum.
Til að draga marklínuna milli ásættanlegrar og óásættanlegrar hegðunar er nauðsynlegt að skerpa á myndinni og við gerum það með dæmum um ásættanlega hegðun nemenda. Nemandi…hefur stjórn á eigin hegðun, bæði í orðum og gjörðum.
- sýnir sjálfum sér og öðrum virðingu.
- virðir þær marklínur sem skólasamfélagið hefur komið sér saman um.
- fer vel með þau verðmæti sem honum er trúað fyrir, gengur vel um skólann og umhverfi hans.
- gerir sér far um að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma af skynsemi og án ofbeldis.
- virðir eignarrétt annarra.
- er tillitssamur og gerir sér far um að setja sig í spor annarra.
- kann að lúta verkstjórn og skilur hlutverk sitt sem nemanda og virðir verkstjórnarhlutverk kennara.
- virðir verk sín og vandar frágang á verkefnum sínum.
Óásættanleg hegðun
Framangreind lýsing á ásættanlegri hegðun á að jafnaði við um hegðun langflestra nemenda Garðaskóla. Þeir eiga að njóta ávaxta góðrar hegðunar sinnar og sjálfsstjórnunar. Við spornum gegn neikvæðri hegðun með því að setja okkur marklínur gegn óásættanlegri hegðun þeirra fáu sem getur skaðað hina mörgu. Dæmi um óásættanlega hegðun sem við getum ekki sætt okkur við eru…
- að nemandi brjóti skólareglur, t.d. um notkun raftækja í kennslustund, reglur um klæðaburð, umgengni um húsnæði skólans og félagsmiðstöðvarinnar.
- að nemandi sé óstundvís eða skrópi í skólann.
- að nemandi eyðileggi, hindri eða trufli skólastarf, vinnu nemenda og kennara. Það er óásættanleg hegðun nemanda að neita samvinnu og hlýða ekki vinsamlegum tilmælum kennara eða annarra starfsmanna skólans. Dæmi um truflun eru t.d. ókurteisi, hróp, frammíköll og óviðeigandi stjórnsemi.
- að nemandi komi óundirbúinn eða án nauðsynlegra gagna í skólann.
- að nemandi sé óvirkur í kennslustundum.
- að nemandi skili verkefni sem er ekki hans eigið, t.d. ritstuldur eða prófsvindl.
- að nemandi ógni öryggi annarra einstaklinga sem starfa í skólanum eða félagsmiðstöðinni og gildir það jafnt um öryggi nemenda, kennara og annarra starfsmanna. Það er óásættanlegt að nemandi beiti ofbeldi af nokkru tagi: líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu.
- að nemandi valdi öðrum ama, leiðindum, kvíða eða öryggisleysi.
- að nemandi gangi í eigur annarra, skemmi eða steli.
- að nemandi reyki eða neyti annarra vímugjafa. Notkun slíkra efna er ávallt litin alvarlegum augum, tilkynnt foreldrum og öðrum viðeigandi aðilum.
- að nemandi fremji lögbrot og bregðumst umsvifalaust við slíku. Lögbrot framin innan veggja skólans og félagsmiðstöðvarinnar eru lögreglumál og tilkynnt yfirvöldum sem slík. Dæmi um lögbrot eru skemmdarverk, þjófnaður, vopnaburður, hótanir, fjárhættuspil, svindl, kúgun, mútur, áreitni hvers konar (kynferðisleg, kynþáttahatur, dónaskapur), neysla og meðferð áfengis og annarra vímuefna.
Ef nemandi þiggur ekki tilboð um að leiðrétta hegðun sína
Nemendum er gefið tækifæri til að leiðrétta hegðun sína svo lengi sem kostur er. Ef nemandi þiggur ekki tilboð um mildu (árangursríku) leiðina, þ.e. að gera áætlun um breytta hegðun, er málið unnið áfram af deildarstjóra og umsjónarkennara. Í flestum tilvikum er boðað sem fyrst til fundar með foreldrum viðkomandi nemanda. Þá taka oftast við aðgerðir sem byggja ekki á sjálfsstjórn nemanda heldur skilyrðum og eftirliti. Eftirfarandi eru dæmi um úrræði þegar nemendur vilja ekki eða geta ekki þegið tilboð um að leiðrétta hegðun sína (fara mildustu leiðina) og snúa sterkari til starfa á ný:
- Nemandi vinnur verkefni sín hjá deildarstjóra.
- Aðhalds- og umbótavinna.
- Gerður hegðunarsamningur með skilyrðum.
- Nemanda er boðin aðstoð námsráðgjafa.
- Tilvísun í sérúrræði.
- Tilvísun til skólasálfræðings (með samþykki foreldra).
- Fundur með öllum kennurum viðkomandi nemanda.
- Stundaskrá nemanda skert (tímabundið).
- Reglulegir stöðufundir með umsjónarkennara/foreldrum.
- Vísað til skólalæknis eða hjúkrunarfræðings (t.d. vegna skólasóknar, reykinga eða ahættuhegðunar).
- Nemandi fluttur milli bekkja/hópa.
- Nemendum útveguð vinna tengd skólastarfinu.
- Foreldrar fylgja nemanda í kennslustundum.
- Ráðinn stuðningsfulltrúi
- .Tilvísun til barnaverndar.
- Nemanda útveguð skólavist í öðrum skóla.
- Annað sem hentar aðstæðum.
Neikvæð hegðun hefur afleiðingar
Nemandi sem ekki getur haft stjórn á eigin hegðun og fer ítrekað yfir marklínur eða brýtur reglur getur vænst þess að eftirlit með honum verði aukið og að honum sé ekki treyst til þess að fara í vettvangsferðir, skólaferðalög eða taka þátt í viðburðum á vegum skólans þar sem treysta verður á sjálfsstjórn nemenda. Nemanda og foreldrum hans er þegar tilkynnt um slíkar skerðingar og hvaða skilmálar gilda um að aflétta þeim. Viðleitni nemanda og vilji til að ná stjórn á eigin hegðun er þar lykilatriði. Nemandi og forráðamaður hafa einnig svigrúm til að skilgreina leiðir til úrbóta, t.d. að forráðamaður taki þátt í viðburðum með nemandanum.
Þegar nemendur brjóta alvarlega af sér eru foreldrar kallaðir til. Ef um lögbrot eða alvarleg agabrot er að ræða er nemanda vísað frá skóla á meðan afgreiðsla máls er undirbúin í allt að fimm daga. Slík brottvísun getur verið varanleg, allt eftir eðli brotsins. Alvarleg agabrot eru meðhöndluð skv. tilmælum í lögum og reglugerðum[1].
[1] Sjá sérstaklega Reglugerð 1040/2011 um ábyrgð og skyldur allra aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.