Við Garðaskóla starfar nemendaverndarráð skv. reglugerð um skólaþjónustu við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum, nr. 444/2019. Nemendaverndarráð hefur það meginmarkmið að starfa að velferðarmálum einstakra nemenda í skólanum. Nemendaverndarráð samræmir störf þeirra sem sjá um málefni nemenda varðandi forvarnarstörf, heilsugæslu, námsráðgjöf, sérkennslu og sérfræðiþjónustu. Ráðið er skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Nemendaverndarráð fjallar um úrræði í málum nemenda sem til þess er vísað. Fundir eru bókaðir og farið er með allar upplýsingar samkvæmt reglum um meðferð trúnaðargagna. Þegar máli nemanda er formlega vísað til nemendaverndarráðs eru foreldrar upplýstir um það.
Nemendaverndarráð fundar vikulega og í því sitja aðstoðarskólastjóri, deildarstjórar árganga og námsvers, námsráðgjafar, skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur, forstöðumaður félagsmiðstöðvar og fulltrúi fjölskyldusviðs Garðabæjar. Umsjónar-kennarar mæta á fundi þegar þörf er á því. Deildarstjóri námsvers boðar til, stjórnar og leggur fram dagskrá funda nemendaverndarráðs sem haldnir eru vikulega á starfstíma skóla. Allir starfsmenn skólans geta vísað málum til nemendaverndarráðs í samráði við deildarstjóra námsvers.
Nemendaverndarráð fjallar um einstaka nemendur, mál hópa og heilla bekkja, agamál og annað er varðar velferð nemenda við skólann. Hugað er að námslegum þáttum, sjálfsmynd og líðan og félagslegri stöðu nemenda. Ráðið ákveður hver/hverjir taka að sér hvert mál og hvenær viðkomandi skal greina frá árangri þess sem gert er. Ráðið getur kallað á sinn fund þá aðila innan skólans og utan sem það telur að geti upplýst sig um ákveðin málefni. Full trúnaðarskylda fundarmanna gildir á öllum fundum nemendaverndarráðs.