Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Í Garðaskóla stunda um 615 nemendur á aldrinum 13-16 ára nám í 8.-10. bekk. Nemendur koma úr öllum hverfum Garðabæjar auk þess sem um 5-7% nemenda er búsettur í öðrum sveitarfélögum. Gott samstarf er milli Garðaskóla og annarra grunnskóla Garðabæjar um flutning nemenda milli skóla.

Skv. Aðalnámskrá grunnskóla er skólavika nemenda 24-25 klst. löng. Kennslustundir í Garðaskóla eru flestar 55 mínútna langar. Umsjónartími er einu sinni í viku, 55 mínútur í senn. Skólastarf hefst kl. 8:10 alla virka daga og lýkur yfirleitt kl. 14:15 eða kl. 15:15. Skólaárinu er ekki skipti í annir en nemendur fá endurgjöf á stöðu sína í námi jafnt og þétt allt skólaárið. Viðtöl við nemendur og foreldra eru haldin um mitt haust og í upphafi vorannar til að ræða um markmiðasetningu hvers nemanda, líðan, stöðu og framvindu í náminu.

Í Garðaskóla er unglingum boðið að taka þátt í fjölbreyttu félagslífi og námsumhverfi við hæfi hvers einstaklings. Skólinn státar af öflugri fagkennslu bæði í bóklegum og verklegum greinum. Fagstjórar halda utan um starfið í stærstu fagdeildunum og stýra vinnu fagkennara en kennslan byggir á mikilli samvinnu þeirra. Hefðbundið skólastarf er reglulega brotið upp t.d. með „Gagn og gaman“ þemadögum að hausti og ýmsum uppákomum í skólanum svo sem leiksýningum og fræðsluerindum. 

Nemendur í 8. bekk eru í bekkjakerfi sem styður við þá félagslega á meðan þau eru að laga sig að vinnubrögðum og skólabrag. Áhersla er lögð á að nemendur fái gott svigrúm sitt fyrsta ár í skólanum til að aðlagast vinnubrögðum og samskiptareglum skólans. List- og verkgreinar skipa stóran sess í stundatöflum 8. bekkja. Bekkirnir eru blandaðir, reynt er að hafa svipaðan nemendafjölda og kynjablöndun í öllum umsjónarbekkjum. Stuðningur við nám og hegðun fer að mestu leyti fram inni í bekkjardeildum.

Að loknum 8. bekk geta nemendur valið sér námsleið úr fjölbreyttu úrvali áfanga á grunnskólastigi, í skyldunámsgreinum og vali, bóklegu námi og verklegu. Þeir nemendur sem geta og vilja eiga kost á að flýta för sinni í átt að stúdentsprófinu með því að taka framhaldsskólaáfanga sem kenndir eru í Garðaskóla í nánu samstarfi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Í 9. og 10. bekk eykst val nemenda og stundatöflur þeirra eru lagaðar að áhuga og námslegum þörfum hvers og eins. Slík einstaklingsmiðun er möguleg í krafti hópa- og ferðakerfis skólans sem byggt er upp á svipaðan hátt og áfangakerfi fjölbrautaskóla. Nemendum er skipt í námshópa innan hverrar faggreinar eftir óskum þeirra og hæfni í náminu. Í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði er nemendum skipt í ferðir eftir því að hvaða hæfni þeir stefna. Farið er yfir sömu námssvið í öllum ferðum en verkefni, vinnubrögð og námsgögn geta verið mismunandi. Í hraðferðum er stefnt að meiri og fjölbreyttari hæfni en í hægferðum en markmiðið er ávallt að mæta nemendum þar sem þau eru stödd og styrkja grunnfærni þeirra og hæfni fyrir áframhaldandi nám. Innan hverrar greinar eru sett ákveðin viðmið fyrir röðun í ferðirnar. Teymi fagkennara raðar nemendum í ferðir í hverri grein og staða nemenda gagnvart hæfniviðmiðum um áramót ræður mestu um röðunina. Röðun í ferðir er endurskoðuð þegar þörf er á. Í grófum dráttum má lýsa ferðunum á eftirfarandi hátt:

Hægferðir miðast við nemendur sem hafa ekki náð fullum tökum á þeirri hæfni sem stefnt er að í árganginum. Nemendur fá einstaklingsmiðaðri stuðning við nám sitt og áhersla er lögð á að næra áhuga hvers og eins. Stefnt er að sæmilegu læsi á námssviðinu þó margir nemendur vinni samkvæmt einstaklingsnámskrám og stefni ekki að því að ná að fullu matsviðmiðum Aðalnámskrár við lok grunnskólans. Hóparnir eru fámennir og oft kenndir af teymi fag- og sérkennara. 

Miðferðir miðast við nemendur sem stefna að því að ná góðum tökum á hæfniviðmiðum námssviðsins. Reynt er að hafa hópastærð hóflega til að kennarar eigi hægara með að mæta ólíkum þörfum þeirra nemenda sem raðast í miðferðirnar. 

Hraðferðir miðast við nemendur sem stefna að framúrskarandi hæfni í námsgreininni. Hóparnir eru fjölmennir og gerð er krafa um sjálfstæð vinnubrögð. Í þeim faggreinum sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi (enska, íslenska og stærðfræði) heita hraðferðirnar flugferðir í 9. bekk og fjölbrautaáfangar í 10. bekk:

Flugferðir í 9. bekk miðast við duglega og afkastamikla nemendur sem ljúka yfirferð um hæfniviðmið 9. og 10. bekkjar á einu ári og sitja framhaldsskólaáfanga í 10. bekk sem kenndur er í samstarfið við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. 

Fjölbrautaáfangar í 10. bekk samsvara áföngum á öðru þrepi í framhaldsskóla (sjá aðalnámskrá framhaldsskóla: https://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-framhaldsskola/). Nemendur sem hafa lokið flugferðum í 9. bekk geta tekið fjölbrautaáfanga í ensku, íslensku og stærðfræði. Nemendur sem ljúka þessum áföngum með tiltekinni lágmarkseinkunn geta fengið nám sitt metið til eininga við Fjölbrautaskólann í Garðabæ (FG) og jafnvel fleiri skóla. Þar sem nemendur í fjölbrautaáföngum Garðaskóla hafa sýnt fram á meiri hæfni en krafa er gerð um skv. Aðalnámskrá útskrifast þeir nánast undantekningarlaust með A í lokaeinkunn úr grunnskólanum í þeim faggreinum sem við á. Nemendum í fjölbrautaáföngum stendur til boða að taka lokapróf í áföngunum í FG og fá þá vottun framhaldsskóla fyrir að hafa lokið áfanganum. Vilji nemendur taka framhaldsskólaáfanga í fleiri greinum er sá möguleiki einnig fyrir hendi að stunda fjarnám við framhaldsskóla. 

Í Garðaskóla eru einstaklingar gerðir ábyrgir fyrir gjörðum sínum í leik og starfi og ætlast til að þau vinni í sínum málum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Starfsfólkið hefur áhuga á ungu fólki og sérhæfingu í að vinna með hið viðburðarríka og viðkvæma æviskeið unglingsáranna. Starfsfólk styður við nemendur skólans svo þau megi vaxa og þroskast sem sjálfstæðir einstaklingar. Allt starfsfólk nýtir sér hugmyndir og aðferðir Uppeldis til ábyrgðar til að mæta þessum markmiðum.

Rótgróið samstarf er milli skólans og félagsmiðstöðvarinnar Garðalundar. Félagsmálaval 9. og 10. bekkinga Garðaskóla skipuleggur öflugt og fjölbreytt félagslíf í samstarfi við starfsfólk Garðalundar. Nemendaráð Garðaskóla fylgist með aðbúnaði, skipulagi og starfsháttum í skólanum og vinnur náið með stjórnendum að því þróa og bæta skólann. Undir handleiðslu námsráðgjafa skólans starfar hópur nemendaráðgjafa sem sér um jafningjafræðslu gegn einelti, fylgist með samskiptum innan skólans og tekur á móti nýjum nemendum.

Garðaskóli er umhyggjusamt og metnaðarfullt samfélag. Rík áhersla er lögð á gott samstarf allra aðila og umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki í samskiptum við heimilin. Nemendur, starfsfólk og forráðafólk eru virkjuð til trúnaðarstarfa af ýmsu tagi. Þessi störf eru unnin í nefndum og ráðum sem skipuð eru í upphafi hvers skólaárs og bera ábyrgð á framvindu ákveðinna verkefna í starfi skólans og samstarfi við nærumhverfið. Virk þátttaka nemenda í lýðræðislegu samfélagi er byggð upp með markvissri þjálfun nemenda í samræðufærni og gagnrýninni hugsun; og með því að gefa þeim sess í samfélagi þar sem hlustað er á alla aðila og stöðugt leitað leiða til að gera góðan skóla enn betri.

Forsendur grunnskólastarfs á Íslandi:

 

English
Hafðu samband