Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Upplýsingatækni í Garðaskóla

Garðaskóli hefur á síðustu árum, í takt við aðra grunnskóla í Garðabæ, aukið nýtingu á upplýsingatækni í námi og kennslu. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla felur upplýsingatækni í sér þá hæfni að tileinka sér, umskrifa og skapa þekkingu og miðla henni í samræmi við gefin markmið og siðferðileg viðmið. Meiri áhersla á rafræn skil verkefna í Garðaskóla er liður í þessari þróun, enda helst það í hendur við breyttar áherslur í kennsluháttum, þar sem hefðbundinn texti hefur í einhverjum tilvikum vikið fyrir myndrænni framsetningu (ljósmyndir og kvikmyndir), hljóðvinnslu og munnlegum skilum verkefna.

Markvisst hefur verið unnið að því að endurnýja tækjabúnaði í Garðaskóla sem og efla starfsþróun kennara á þessu sviði. Spjaldtölvur hafa verið teknar í notkun í nokkrum bekkjasettum en þó eru hefðbundnar borðtölvur og fartölvur í meirihluta. Samhliða endurnýjun á tækjabúnaði hafa nemendur leyfi til að koma með sín eigin tæki sem geta nýst í námi og tengjast þráðlausu neti skólans. Þetta er gert í samráði við forráðamenn og skuldbinda nemendur sig til að fylgja sömu tölvu- og netreglum við notkun á eigin tækjum á neti skólans, eins og við notkun á tækjabúnaði skólans. 

English
Hafðu samband