Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Eitt megin einkenni unglingsáranna er þörf einstaklingsins til að skapa sér sérstöðu og fá að bera ábyrgð á sjálfum sér. Foreldrar unglinga finna oft fyrir því að barnið þeirra vill meira sjálfstæði og getur staðið undir því. Það er mikil jafnvægislist að halda áfram að styðja við unglinginn og leiðbeina honum á jákvæðan hátt um leið og foreldrar losa um tauminn og leyfa ungu manneskjunni að efla sjálfstæði sitt.

Eftir sem áður er nauðsynlegt að foreldrar fylgist vel með og eigi gott samstarf við skólann. Skólinn ber ábyrgð á að boðleiðir séu einfaldar og öruggar og að gott samstarf komist á milli skólans og heimila. Í aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013 er bent á í kafla 7.7 að „virk hlutdeild og þátttaka foreldra í námi og starfi barna sinna er forsenda þess að foreldrar geti axlað þá ábyrgð sem þeir bera á farsælu uppeldi og menntun barna sinna“ – þetta á við upp í gegnum allan grunnskólann.

Gott samstarf við foreldra og stöðug upplýsingagjöf er forsenda farsæls skólastarfs. Þar gegna umsjónarkennarar lykilhlutverki og nýta Námfús til að miðla upplýsingum.

Inna

Allir kennarar hafa aðgang að námsumsjónarkerfinu Innu og er skylt að setja þar inn ýmsar upplýsingar. Nemendur og foreldrar hafa síðan aðgang að þessum upplýsingum með aðgangsorðum sínum. Kerfið er notað til að halda utan um upplýsingar sem varða nám og gengi nemandans á meðan hann er í Garðaskóla og tryggja örugg samskipti milli skóla og heimilis.

Kennarar og allir aðrir starfsmenn skólans eru bundnir þagnareiði um það sem fram fer í skólanum og snertir einkamál nemenda og foreldra þeirra. Starfsmönnum ber að gæta þess að fara varfærnislega með trúnaðargögn s.s. skýrslur um nemendur, útprentanir úr dagbók nemenda í Innu, prófúrlausnir og einkunnir þannig að þær upplýsingar lendi ekki í röngum höndum. Skráning upplýsinga og varðveisla þeirra er samkvæmt íslenskum lögum og leiðbeiningum frá Skóladeild Garðabæjar.

Samráðsfundir með nemendum og forráðamönnum

Samráðsfundir með nemendum og forráðamönnum fara fram tvisvar á ári, í október og janúar. Á fundunum er lögð áhersla á samræðu og sameiginlegar ákvarðanir. Nemendur eru beðnir um að vinna sjálfsmat sem rætt er á fundinum. Umsjónarkennarar gefa tímanlega upplýsingar um hvernig nemendur og forráðamenn undirbúa sig fyrir viðtölin. Hvert viðtal tekur um 15-30 mínútur.

Foreldrar og nemendur geta leitað til umsjónarkennara, annarra kennara, námsráðgjafa og stjórnenda við hvaða tækifæri sem er. Skrifstofa skólans (sími 590 2500) gefur nánari upplýsingar um hvernig best er að ná tali af starfsmönnum.

 

English
Hafðu samband