Í Garðaskóla er lögð áhersla á að heimanám sé hóflegt og þjóni fernum tilgangi:
- Að nemandinn fái verkefni sem ætlað er að festa námsatriði í minni (upprifjun).
- Að nemandinn fái verkefni sem undirbúa önnur sem lögð verða fyrir í kennslustund.
- Að nemandanum sé ætlað að ljúka verkefni sem honum tókst ekki í kennslustund.
- Að nemandinn fari með verkefni heim til sín til að sýna foreldrum og veita þeim þannig tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna.
Eðlilegt er að skóli og heimili hafi jákvæð samskipti um heimanám og foreldrar ráðgist við kennara um umfangið – hvort heldur sem þeim finnst það of mikið eða lítið. Kennarar skrá upplýsingar um heimanám og verkefni hverrar viku daglega á Innu og forráðamenn geta fylgst með skilaboðum jafnóðum. Nemandi ber ábyrgð á eigin námi og að standa skil á þeim þáttum sem teknir eru til námsmats. Ef nemandi missir úr kennslustund þarf hann að afla sér upplýsinga um heimavinnu og afla þeirra gagna sem þörf er á. Ef nemandi skilar ekki tilteknum þætti til námsmats getur það þýtt að lokamat geri ekki rétta grein fyrir hæfni hans.
Nemendur hafa góða aðstöðu til að sinna heimanámi í húsnæði skólans og margir nemendur í 9. og 10. bekk nýta þær lausu stundir sem eru í stundatöflum (eyður) til að ljúka heimanámi á skólatíma.