Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Erasmus+ verkefni 2019-2021

Garðaskóli hefur fengið Erasmus+ styrk til tveggja ára vegna verkefnisins „Smart Travelling around Europe: A Youth Guide for Sustainable Tourism. Um er að ræða samstarfsverkefni milli Garðaskóla og skóla í Finnlandi, Grikklandi, Þýskalandi, á Spáni og Ítalíu. Nemendur í 9. bekk eiga möguleika á að sækja um þátttöku og þar með heimsækja nemendur frá hinum þátttökulöndunum og síðar taka á móti þeim.

Verkefnið felst í því að gera nemendur meðvitaða um þær hættur sem steðja að jörðinni okkar, svo sem vegna hlýnandi loftslags og öfga í félagslegum og efnahagslegum aðbúnaði fólks eftir búsetu. Ætlunin er að gera nemendur meðvitaðri um hvernig verið er að vinna að umhverfismálum í þeirra eigin landi sem og á heimsvísu og hvetja þá til þess að bera ábyrgð á umhverfi sínu og huga að sjálfbærni.

Útfærsla verkefnisins er á þá leið að nemendur búa til rafræna ferðahandbók þar sem áhersla er á að gera ferðamönnum kleift að ferðast á umhverfisvænan máta. Nemendur fræðast þannig í leiðinni um ferðamannaiðnaðinn í eigin landi og mikilvægi hans fyrir efnahag, atvinnu og velferð. Ferðahandbók Garðaskóla mun leggja áherslu á græna orku og umhverfisvæna nýtingu orkuauðlinda og er ætlunin að dreifa QR kóða á staði þar sem ferðamenn koma til að fá upplýsingar.

- - - - - -

Smart Travelling around Europe: A Youth Guide for Sustainable Tourism

Erasmus+ samstarfsverkefni 

Um margra ára skeið hefur Garðaskóli tekið þátt í sameiginlegum verkefnum nokkurra Evrópulanda með styrk frá Evrópusambandinu. Verkefnin hafa verið margvísleg og hafa bæði nemendur og kennarar skólans tekið þátt. Mest höfum við unnið með skólum frá Þýskalandi, Grikklandi, Spáni, Ítalíu og Finnlandi og í tveimur verkefnum kom skóli frá Kína inn í samstarfið. Útkoman úr samstarfinu hefur einnig verið breytileg. Alltaf hefur þó verið haft að leiðarljósi að auka skilning og virðingu fyrir menningu og margbreytileika annarra Evrópuþjóða.

Í janúar 2015 var nýrri samstarfsáætlun sem tók við af Comenius hleypt af stokkunum. Þessi nýja áætlun, Erasmus+, setur mennta-,æskulýðs- og íþróttamál undir einn hatt. Markmið Erasmus+ er annars vegar að styðja við verkefni sem eiga að auka færni og hæfni einstaklinga til að takast á við störf framtíðarinnar og hins vegar að stuðla að nútímavæðingu mennta- og æskulýðskerfa, meðal þátttökulandanna.

Árið 2019 hlaut Garðaskóli styrk vegna Erasmus+ samstarfsverkefnisins Smart Travelling around Europe: A Youth Guide for Sustainable Tourism og voru samstarfsskólarnir frá Finnlandi Grikklandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu. Nemendur í 9. bekk skólaárið 2019-2020 áttu möguleika á að sækja um þátttöku í verkefninu sem fólst í því að gera nemendur meðvitaðri um þær hættur sem steðja að jörðinni okkar, til að mynda vegna hlýnandi loftslags og hvernig verið er að vinna að umhverfismálum í þeirra eigin landi sem og á heimsvísu. Auk þess var tilgangurinn að hvetja nemendur til að bera ábyrgð á umhverfi sínu og huga að sjálfbærni.

Útfærsla verkefnisins var á þá leið að nemendur bjuggu til rafræna ferðahandbók þar sem áhersla var á að gera ferðamönnum kleift að ferðast á umhverfisvænan máta. Ætlunin var að nemendur myndu þannig fræðast í leiðinni um ferðamannaiðnaðinn í eigin landi og mikilvægi hans fyrir efnahag, atvinnu og velferð. Innlegg Garðaskóla í ferðahandbókina lagði áherslu á græna orku og umhverfisvæna nýtingu orkuauðlinda og leiðir til að ferðast á umvherfisvænan innanlands. Verkefnið var hluti af stundatöflu nemenda og var vinna þeirra og afrakstur til fyrirmyndar.

Vegna Covid-19 náðu nemendur aðeins að heimsækja samnemendur sína í Finnlandi en ekki nemendur í hinum þátttökulöndunum. Þegar að faraldurinn dróst á langinn og í ljós kom að upphaflegi nemendahópurinn gætu ekki tekið þátt í nemendaheimsóknum þar sem þeir voru útskrifaðir úr skólanum, var brugðið á það ráð að leita til nemenda sem voru í 10. bekk skólaárið 2021-2022 sem tóku þátt í þriggja daga rafrænum nemendasamskiptum fyrir hönd skólans, kynntu verkefni sem þeir hefðu unnið í tengslum við umhverfismál og gerðu það með prýði. Afrakstur verkefnisins, Smart Travelling around Europe: A Youth Guide for Sustainable Tourism, má sjá hér.

English
Hafðu samband