Símalaus dagur í 8. bekk
Nemendur Garðaskóla hafa af og til orðað ósk um símalausan dag í skólanum. Með þessa beiðni að leiðarljósi tóku umsjónarkennarar 8. bekkjar sig til, í samstarfi við heimilin, og stilltu upp símalausum degi.
Ekki var um eiginlegt símabann að ræða en þeir nemendur sem komu með símann sinn í skólann voru beðnir um að skilja hann eftir í skápnum sínum yfir daginn. Umsjónartímar morgunsins voru nýttir í bekkjarfundi og spilatíma sem svo færðist yfir í frímínúturnar þar sem nemendur höfðu aðgang að billiard borðum, spilum ofl.
Var það samdóma álit starfsfólks að það væri mun meira líf yfir hópnum í frítímanum og samkvæmt kvöldfréttum RÚV (fréttin byrjar á 17:00) spjölluðu nemendur meira saman, og í sumum tilvikum við nemendur sem þau höfðu lítið spjallað við áður.