Samfélagsverkefni í 10. bekk
Undanfarin ár hafa nemendur Garðaskóla í auknum mæli óskað eftir að fá að vinna að einhverskonar samfélagsverkefni á skólatíma. Það var því tilvalið að bjóða upp á þátttöku í slíku verkefni í tengslum við uppbrot 10. bekkjar vegna samræmdra könnunarprófa.
Föstudaginn 9. mars komu nemendur saman í mismunandi hópum og útbjuggu lítinn gjafapoka með hreinlætisvörum og öðru hentugu handa heimilislausum. Söfnun meðal nemenda og foreldra, ásamt gjöf frá Varma, gerði það að verkum að hver poki innhélt hagnýta hluti eins og ullarsokka, tannkrem, tannbursta og sápustykki ásamt kveðju frá nemendum.
Verkefnið var unnið í samstarfi við Rauða krossinn sem rekur Frú Ragnheiði og Konukot og munu fulltrúar nemenda afhenda Rauða krossinum pokana sem kemur þeim áfram til heimilislausra.