Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Jafnréttisþing Garðaskóla

26.04.2016 15:37
Jafnréttisþing Garðaskóla

Jafnréttisþing Garðaskóla var haldið í fyrsta sinn í gær, mánudaginn 25. apríl. Afar góður rómur var gerður að deginum þar sem nemendur fengu líflega fræðslu og tóku þátt í umræðum um jafnrétti á víðum grundvelli. Nemendaráð Garðaskóla og ungmennaráð UN Women tóku virkan þátt í undirbúningnum og framkvæmd dagsins.

Allir árgangar fengu kynningu um Samtökin ´78 sem skilgreina sig sem hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi. Þar gafst nemendum tækifæri til að spyrja, m.a. með nafnlausum miðum, hinna ýmsu spurninga sem fyrirlesarar reyndu að svara eftir bestu getu. 

Fulltrúar ýmissa félagasamtaka og verkefna sögðu einnig frá starfi sínu og baráttu, þ.á m. UN Women, Amnesty International, HeForShe og tvær ungar konur sem sögðu frá lífi sínu í samfélagi sem skilgreinir þær sem fatlaðar. Nemendur gátu valið sér málstofur til að fara á, auk þess sem hægt var að taka þátt í gerð jafnréttistímalínu, leggja sitt af mörkum í svokallaðri „afurðastofu“ og keppa í „pubquiz“ um jafnrétti.

Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona og borgarfulltrúi, opnaði þingið með stuttu erindi sem án efa kveikti áhuga fleiri á efninu á þessum fræðandi og skemmtilega degi.

Hægt er að sjá myndir frá dagskránni í myndasafninu en einnig er stutt samantekt í þessu myndbandi.

 
Til baka
English
Hafðu samband