Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Loksins! Fullt skólastarf frá 4. maí 2020

28.04.2020 15:21
Loksins! Fullt skólastarf frá 4. maí 2020

Loksins getum við boðið nemendum tilbaka í fullt skólastarf. Frá og með mánudeginum 4. maí 2020 verður kennt skv. stundaskrá að öllu leyti. Kennsla verður í öllum greinum: skyldu og vali, bóklegum greinum, íþróttum og sundi, list- og verkgreinum. Við leggjum áherslu á að allir nemendur mæti í skólann nema þeir séu veikir eða vísi fram vottorði frá lækni um að þeir eigi ekki að mæta t.d. vegna undirliggjandi áhættuþátta gagnvart COVID-19.

Skólamatur opnar matsölu nemenda frá og með mánudeginum 4. maí. Nemendur sem voru í áskrift eiga að halda áfram stöðu sinni en foreldrar eru beðnir um að hafa samband við Skólamat ef þeir vilja gera breytingar á áskriftinni: https://www.skolamatur.is/. Sjálfsafgreiðsla verður á mat og salatbarinn opinn. Gætt verður vel að hreinlæti í kringum afgreiðslu matarins, spritt verður til staðar og starfsmenn nota  hanska.

Vegna þess að áfram er í gildi neyðarstig almannavarna vegna COVID-19 eru ýmsar ráðstafanir gerðar í Garðaskóla til að koma í veg fyrir að smit berist inn í skólann:

  • Nemendur og starfsmenn sem finna til veikinda, einkenna sem tengjast flensu og/eða COVID-19, eiga skilyrðislaust að vera heima.
  • Gestakomur eru ekki leyfðar í húsnæði skólans og biðjum við foreldra um að hafa samband í síma eða tölvupósti í staðinn.
  • Íþróttir verða kenndar úti eins og hægt er og nemendur munu ekki hafa aðgang að búningsklefum fyrir eða eftir íþróttatíma. Sundkennsla verður án takmarkana og búningsklefar að sjálfsögðu í notkun.
  • Áfram verða ýmsar sóttvarnarráðstafanir í gildi. Nemendur verða minntir á handþvott og spritt verður til staðar við vaska, í matsal og anddyrum. Starfsmönnum eru áfram settar reglur um að halda 2 metra fjarlægð við aðra fullorðna og skólastarf verður skipulagt þannig að aldrei séu fleiri en 50 fullorðnir í sama rými.

Til að bregðast við þeirri skerðingu sem orðið hefur á skólastarfinu síðan um miðjan mars höfum við gert nokkrar breytingar á skóladagatali:

  • Kennsla verður skv. stundaskrá til og með mánudagsins 25. maí.
  • Þriðjudaginn 26. maí er skipulagsdagur (óbreytt frá fyrra skóladagatali Garðabæjar)
  • Prófadögum hefur verið fækkað:
    • Þrír dagar í 10. bekk: 27.-29. maí
    • Einn dagur í 8. og 9. bekk: 29. maí

Dagana 2.-8. júní verður uppbrotsdagskrá sem verður nánar auglýst síðar. Starfsmenn skoða nú hvort mögulegt sé að halda viðburði eins og árshátíð nemenda og vorferðir en gæta verður að mörgum ólíkum hagsmunum áður en ákvörðun um slíkt verður tekin.

Skólaslit og útskrift verða þriðjudaginn 9. júní og er það óbreytt í skóladagatali ársins. Skólaslit hafa verið tímasett kl. 9.00 í 8. bekk og kl. 10.00 í 9. bekk. Útskrift 10. bekkinga verður kl. 17 að öllu óbreyttu. Skipulag þessara viðburða verður nánar auglýst síðar.

Starfsfólk Garðaskóla hlakkar mikið til að hitta nemendur aftur og komast af stað í eðlilegt starf. Við þökkum nemendum þolinmæði og þrautseigju við mjög óvenjulegar aðstæður. Við þökkum foreldrum og öllum aðstandendum líka stuðning og tillitssemi sem þið hafið sýnt á margvíslegan hátt.

Með bestu kveðju,
starfsfólk Garðaskóla

Til baka
English
Hafðu samband