Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sýndarveruleik í geimnum. Er það möguleiki?

09.11.2018 07:47
Sýndarveruleik í geimnum. Er það möguleiki?

Lið Garðaskóla undirbýr sig fyrir FLL keppnina (First Lego League) sem haldin verður í Háskólabíói þann 10. nóvember næstkomandi. Í liðinu eru sex nemendur, þau Daníel Steinn Davíðsson, Egill Grétar Andrason, Guðmundur Tómas Magnússon, Jökull Tinni Ingvarsson, Kara Kristín Blöndal og Karen Yin Guðnadóttir. Leiðbeinandi liðsins er Ragnheiður Stephensen.

Keppnin skiptist í fjóra megin þætti sem eru þrautabrautin, hönnunin, liðsheildin og þemaverkefnið. Í þrautabrautinni eiga nemendur að forrita og hanna vélmenni sem leysir fyrirfram ákveðnar þrautir á ákveðnum tíma. Nemendur nota til þess Eve3 vélmennið frá Lego og Lego Mindstorm hugbúnaðinn. Hönnunarhlutinn byggist á því að nemendur útskýra fyrir verkfræðingum hönnun og forritun vélmennisins. Hvaða hindranir þeir hafi upplifað í hönnun sinni og hvað leiðir þeir hafa farið að lausninni. Liðsheildin er m.a. metin með því að skoða hversu vel liðið vinnur saman og hvernig samskiptin innan þess eru.

Þemaverkefnið er nýsköpunarverkefni sem tengist inn á þema keppninnar ár hvert. Þema keppninnar í ár er „In to orbit“ sem er ansi krefjandi verkefni fyrir grunnskólanemendur að glíma við. Hlutverk nemenda er að finna upp á einhverju nýju eða bæta eitthvað sem er nú þegar til sem bætir líðan eða aðstöðu geimfara úti í geimnum. Það getur verið líffræðilegt, félagslegt eða eitthvað sem snýr að umhverfi þeirra.

Lið Garðaskóla hefur verið að kynna sér möguleika á að setja upp sýndarveruleik í geimnum sem geimfarar gætu nýtt sér til að bæta líðan sína í þröngum vistarverum sínum. Innilokun er alltaf hluti af því sem geimfarar þurfa að glíma við og er umhverfi þeirra ekki mjög líflegt inni í geimstöðinni og datt nemendum í hug að það að geta skellt sér út í náttúruna, þó það væri ekki nema í sýndarveruleika gæti bætt líðan geimfaranna. Eins gætu þeir komist í snertingu við umhverfið sitt heima sem gæti hjálpað með heimþránna.

Liðið hefur þurft að afla mikið af upplýsingum sem liggja ekki alveg á lausu. En ásamt því að nýta sér netið hafa nemendur verið í sambandi við sérfræðinga sem bæði búa yfir þekkingu á samskiptum í geimnum og sérhæfða þekkingu á sýndarveruleika. Einn þeirra er stjarneðilisfræðingurinn Guðjón Henning Hilmarsson sem búsettur er í Þýskalandi og leggur stund á doktorsnám við Max Planck Institute for Radio Astronomy og hafa nemendur getað speglað hugmyndir sínar við hann og fengið endurgjöf á þær. Eins hafa nemendur verið í sambandi við Hannes Högna Viljhjálmsson,dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík,  en hann er helsti sérfræðingur þeirra í sýndarveruleika.

Nemendur hafa komist að því að sýndarveruleiki í geimnum er eitthvað sem vel er hægt að framkvæma með einhverjum hætti. Að auka fjölbreytni í umhverfi og náttúruskoðun í sýndarveruleika er vel framkvæmanlegt án mikilla breyting í dag þó það eigi eftir að finna hagkvæmustu leið fyrir geimfarana að hreifa sig í sýndarveruleikanum í þyngdarleysinu en nemendur hafa sett fram nokkrar hugmyndir í þeim efnum sem myndu þarfnast skoðunnar.

Hvað varðar nánd við fjölskyldumeðlimi að þá geta geimfarar í dag haft samband við fjölskyldu í gegnum net, sem er streymt í gegnum Nasa og því alltaf töluverður seinkunn í samskiptum (Lagg). Þó að hitta fjölskyldumeðlimi og henda á milli bolta og gefa „Hi five“ sé ekki alveg raunhæfur möguleiki núna í sýndarveruleikanum eru nemendum sannfærði um að hægt sé að auka nánd geimfara við fjölskyldu með þessu móti þó ekki nema að leyfa geimförum að vera í sínu umhverfi í sýndarveruleikanum.  Með frekari þróun og mögulega betri tækni í gagnaflutningum um langa vegalengd er síðan aldrei hægt að útiloka neitt og eflaust eftir að verða miklar breytingar á þessu sviði í náinni framtíð.

Garðaskóli vann þessa keppni í fyrra og hvernig sem fer í ár er engin spurning að nemendur eru margt fróðari eftir þá vinnu sem hefur farið fram og fá ómetanlega reynslu út úr þessu. Þessi keppni snertir á öllum grunnþáttum menntunnar og að taka þátt í henni ætti að vera eitthvað sem allir sækjast eftir.

Til baka
English
Hafðu samband