Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vel heppnað Jafnréttisþing í Garðaskóla

22.11.2017 11:06
Vel heppnað Jafnréttisþing í Garðaskóla

Jafnréttisþing Garðaskóla var haldið í annað sinn 21. nóvember síðastliðinn. Afar góður rómur var gerður að deginum þar sem nemendur fengu líflega fræðslu og tóku þátt í umræðum um jafnrétti á víðum grundvelli.

 Allir árgangar horfðu á brot úr leiksýningunni Smán, sem er verðlaunað átakaverk um sjálfsmynd og sjálfsvitund okkar í fjölmenningarsamfélagi nútímans, og er sýnt um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu. Leikarar úr sýningunni ræddu svo við nemendur um málefnið.

Fulltrúar ýmissa félagasamtaka og verkefna sögðu einnig frá starfi sínu og baráttu, þ.á m. Samtökin ´78, Amnesty International, Jafningjafræðslan, Stígamót, Félag múslima og Siðmennt. Einnig sögðu sögu sína ungar konur sem barist hafa fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi, einstaklingar sem orðið hafa fyrir hatursorðræðu og einn fyrrverandi nemandi Garðaskóla, Andrea Urður Hafsteinsdóttir, sem glímt hefur við kvíða og þunglyndi.  

Nemendur gátu valið sér málstofur til að fara á, auk þess sem hægt var að taka þátt í gerð jafnréttistímalínu, leggja sitt af mörkum í svokallaðri „afurðastofu“ og keppa í spurningakeppni um jafnrétti þar sem krakkar úr nemendaráði héldu um stjórnartaumana og stóðu sig með mikilli prýði.

Myndir frá Jafnréttisþingi Garðaskóla 2017 má sjá í myndasafninu
Til baka
English
Hafðu samband