Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnarvika Garðabæjar 2.-6. október - Er síminn barnið þitt?

29.09.2017 17:35
Forvarnarvika Garðabæjar 2.-6. október - Er síminn barnið þitt?

Dagana 2.-6. október verður haldin forvarnavika í leik- og grunnskólum Garðabæjar. Þema vikunnar er snjalltækjanotkun, líðan og svefn undir slagorðinu "Er síminn barnið þitt?".  Í vikunni verður boðið upp á fræðslu þessu tengt fyrir foreldra í Garðabæ, starfsfólk skólanna og nemendur.  Undirbúningur fyrir forvarnavikuna hefur staðið yfir frá því í vor og bæði starfsfólk og nemendur hafa komið að undirbúningnum. 

Viðburðir í Garðaskóla í tengslum við forvarnaviku 
Nemendur Garðaskóla munu miðvikudaginn 4. október taka þátt í umræðuverkefnum í umsjónarhópum sínum um snjalltæki og áhrif þeirra. Af þeim sökum verður tvöfaldur umsjónartími þann morguninn og hefðbundin faggreinakennsla í 2. kennslustund fellur niður.

Fimmtudaginn 5. október munu nemendur í 9. og 10. bekk fá tækifæri til að hlusta á Eyjólf Örn Jónsson sálfræðing um ofnotkun tölva og snjalltækja.

Opinn fræðslufundur fyrir foreldra – fimmtudaginn 5. október kl. 20 í Sjálandsskóla
Fimmtudaginn 5. október kl. 20:00 verður haldinn opinn fræðslufundur fyrir foreldra í húsnæði Sjálandsskóla, við Löngulínu.  Á fundinum verður fjallað um umgengni við snjalltæki og hvað beri að varast.  Á fundinum flytja Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir, og Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur, erindi.  Yfirskrift erindis Björns Hjálmarssonar er ,,Snjalltækjanotkun barna og unglinga – er eitthvað að óttast?“, þar sem hann fjallar um þær miklulífstílsbreytingar sem orðið hafa hjá börnum og unglingum með tilkomu nýrrar tækni og hvort einhverjar ógnir lúri í farvatninu. Arna Skúladóttir,  barnahjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í svefni og svefnvanda barna, ræðir um hvað hefur áhrif á svefn barna og unglinga, t.d. skipulag á daglegu lífi, venjur foreldra og persónugerð barnsins.   Léttar veitingar verða í boði á fundinum og allir eru velkomnir.

Starfsfólk Garðskóla hvetur forráðamenn til að fylgjast vel með samskiptum unglinganna sinna, bæði í raunheimi og í snjallheiminum. 

Til baka
English
Hafðu samband