Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Starf Garðalundar 2014-2015

27.08.2014
Starf Garðalundar 2014-2015

Kvölddagskrá félagsstarfsins í Garðalundi hefst formlega miðvikudaginn 10. september með opnu húsi.  Skipulag dagskrár verður í höndum nemenda í félagsmálafræði og starfsmanna Garðalundar.  Kvölddstarfið er ætlað nemendum í 8. til 10. bekk.  Kvölddagskráin er auglýst á heimasíðu Garðalundar, www.gardalundur.is  ásamt tilkynningum á fésbók nemendafélagsins. Stærri viðburðir sem brjóta verulega upp skólastarfið eru færðir inn á skóladagatal um leið og skipulag liggur fyrir. Dagskráin er einnig auglýst daglega  á stórum skjá í matsal og ætti ekki að fara framhjá nemendum í dagsins önn.

Opið verður með hefðbundnum hætti þrjú kvöld í viku, mánudaga og miðvikudaga frá kl. 19 til 22 og föstudaga frá kl. 19 til 22.30. Í boði verður fjölbreytt afþreying, dagskrá nemenda, spil, leiktæki, leikir, stutt námskeið og hópastarf sem rúmast innan opnunartímans. Dansleikir og stærri viðburðir verða einkum á föstudögum og í einhverjum tilfellum fram undir miðnætti. Rúta verður í boði eftir dansleiki. Í einhverjum tilfellum flyst dagskrá úr húsi vegna ferða, eða samvinnu við aðrar félagsmiðstöðvar og skóla. Húsinu er þá lokað á meðan.

Miðað er við að dansleikir séu 3 á önn og standa frá kl. 20 og fram undir miðnætti. Skipulagðar rútuferðir verða í boði. Opnunardansleikur er áætlaður 26. september að afloknum samræmdum prófum í 10. bekk. Rétt er að geta þess að forráðamenn nemenda þurfa að samþykkja það ætli börn þeirra að bjóða vinum og jafnöldrum úr öðrum bæjarfélögum á skemmtanir. Forráðamenn geta sent okkur upplýsingar á gardalundur@gardalundur.is.

Aðrir stærri viðburðir í vetur verða t.d þátttaka nemenda í félagsmálafræði í landsmóti Samfés, Afmæli skólans, Gagn og gaman dagar, Draugahús, Söngkeppni Samfés og Stílkeppni Samfés, hæfileikakeppnin Safinn, Samfésdansleikur, leikuppfærsla og skíðaferðir svo eitthvað sé nefnt. Lögð verður áhersla á að hafa öðru hverju dagskrá í hádegi og frímínútum í vetur með ýmsum kynningum, sýningum, tónlist og léttu gamni til að hressa upp á andann á skólatíma og í félagsmiðstöð.

Félagsmálafræði er áfram í boði sem valgrein fyrir nemendur í 9. og 10. bekk sem hafa brennandi áhuga á félagsmálum. Stór hópur sótti um en ekki komast allir að sem vilja. Hópurinn sem var valinn og hefst handa strax í skólabyrjun og markmiðið er að nemendur félagsmálafræðinnar skipuleggi  og framkvæmi sem mest í  félagslífi vetrarins og njóta til þess stuðnings og reynslu starfsmanna félagsmiðstöðvar og skóla. Ef allt gengur að óskum ætti viðburðadagatal að líta dagsins ljós í byrjun september og það verður spennandi vetur framundan.
Þess má geta að margir hafa í gegnum tíðina öðlast dýrmæta reynslu við að undirbúa, framkvæma og stjórna viðburðum og okkar nemendur verið áberandi og öflugir í félagslífi framhaldsskólanna gegnum árin. Af því erum við stolt og vonum að framhald verði á.

Áherslur  í vetur verða að efla verklegar tómstundir, útifrístundir og auka tónlistar -og hljómsveitastarf.  Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband á skrifstofu Garðalundar. Hægt er að fá úthlutað æfingatímum í tónmenntastofu á kvöldin með eða án leiðsagnar. Einnig er hægt að nýta tónlistaraðstöðu og hjóðupptökuver á skólatíma í samráði við stjórnendur. Nemendur er hvattir til að nýta sér þessa opnu möguleika.

Áfram verður haldið á þeirri leið að bæta hugmyndafræði félagslífsins, tækjakost, búnað og alla aðstöðu. Góð þátttaka og samstaða nemenda gegnum árin hefur gert félagslíf skólans og nemendafélagið  eitt það öflugasta og farsælasta á landinu og gert nemendum mögulegt að takast á við afar stór, flókin og skemmtileg verkefni .  

Nýtum tækifærin og njótum okkar vel í vetur. Hlökkum til að sjá þig!

Starfsfólk Garðalundar.

 

Beinn sími félagsmiðstöðvar er 5902575 og netfang gardalundur@gardalundur.is

Gunnar  gunnar@gardalundur.is   sími 5902570
Brynhildur brynhildur@gardalundur.is sími 5902575

 

Til baka
English
Hafðu samband