Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hjálparenglar í Garðaskóla

22.11.2013 11:16
Hjálparenglar í Garðaskóla

Nemendur í Garðaskóla hafa hlotið viðurkenninguna „Hjálparenglar Fjölskylduhjálpar Íslands“ vegna góðgerðarstarfa vorið 2013. Viðurkenningin var afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Perlunni fimmtudaginn 21. nóvember. Nemendur í 9.IW ásamt Ingimar Waage umsjónarkennara og fulltrúum foreldra tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Góðgerðarverkefni Garðaskóla varð til fyrir frumkvæði nemenda og foreldra í 8. bekk á síðasta skólaári. Foreldrar fengu Fjölskylduhjálp Íslands (FÍ) til samstarfs um að bjóða unglingunum að taka þátt í hjálparstarfi. Starfið fólst í að snúðar voru bakaðir í skólanum, þeim pakkað inn og afhentir í matarúthlutun FÍ. Nemendur störfuðu einnig sem sjálfboðaliðar við matarúthlutun og máluðu stóla sem prýða nú húsnæði FÍ í Breiðholti.

Góðgerðarnefnd Garðaskóla er skipuð starfsmönnum, nemendum og foreldrum. Nefndin hefur í haust unnið að því að fá fleiri aðila til samstarfs og stefnt er að því að bjóða nemendum í 8. og 9. bekk að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum í vetur. Þau verkefni verða kynnt í desember og unglingarnir vinna síðan að þeim alla vorönnina.
Til baka
English
Hafðu samband