Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Viðurkenning fyrir góðgerðarverkefni

20.11.2013 16:30
Viðurkenning fyrir góðgerðarverkefniGarðaskóli hlýtur viðurkenningu Fjölskylduhjálpar Íslands fyrir aðkomu að góðgerðarstarfi. Forseti Íslands veitir viðurkenninguna við athöfn í Perlunni fimmtudaginn 21. nóvember kl. 14.00.

Nemendur í 9. IW og Ingimar Waage umsjónarkennari þeirra munu taka við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Fulltrúar foreldrar í góðgerðarnefnd skólans verða einnig viðstaddir.

Góðgerðarnefnd Garðaskóla varð til fyrir frumkvæði bekkjarfulltrúa í 8.IW síðasta vor. Verkefnið fór af stað í samstarfi við Fjölskylduhjálp Íslands með því að nemendur í 8. bekk skólans bökuðu snúða og pökkuðu þeim inn. Snúðarnir voru sendir í matarúthlutun Fjölskylduhjálparinnar og nokkrir nemendur tóku einnig þátt í matarúthlutuninni sjálfri. Nemendur í öllum árgöngum tóku síðan þátt í að mála gamla stóla fyrir sömu hjálparsamtök og voru þeir afhentir síðsumars og prýða nú húsnæði Fjölskylduhjálparinnar í Breiðholti. 

Verkefnið heldur áfram að þróast í skólanum og í vetur stefnir góðgerðarnefnd að því að bjóða nemendum í 8. og 9. bekk að taka þátt í vel skilgreindu góðgerðarstarfi. Nemendur spyrja stundum hvað maður græði á því að hjálpa öðrum og þátttaka í verkefninu svarar því mjög vel.

Við þökkum öllum nemendum og foreldrum sem hafa tekið þátt í Góðgerðarverkefninu kærlega fyrir frumkvæði og dugnað. 

Til baka
English
Hafðu samband