Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólahald og skíðaferðir - viðbrögð við veðráttu

06.03.2013
1. viðbragðsáætlun vegna óveðurs


2. skíðaferð 8. bekkinga er aflýst


3. beðið frétta um framvindu á skíðaferð 9. og 10. bekkinga


1.  Búið er að virkja viðbragðsáætlun vegna óveðurs á höfuðborgarsvæðinu. Starfsfólk skólans heldur uppi því starfi sem nú er í gangi í skólanum til kl. 13.00 og í kjölfar þess fara nemendur heim. Við biðjum foreldra um að vera í sambandi við börn sín, sækja þau ef mögulegt er og fylgjast með að þau komist heim á öruggan hátt. Starfsfólk skólans mun ekki hleypa nemendum út úr húsinu nema það viti að þeir hafi gert ráðstafanir um heimferðina í samráði við foreldra. Skólinn verður opinn og starfsfólk á vakt þar til allir eru komnir í örugga höfn.
Öllum nemendum verður boðinn matur í hádeginu. Matsalan er opin fyrir þá sem geta nýtt sér hana og skólinn og Garðalundur bjóða öllum pizzu.
2.  Vegna veðurs hefur skíðaferð 8. bekkinga verið aflýst. Skólinn og Garðalundur munu í staðinn skipuleggja skíðadag við fyrsta tækifæri. Nemendur geta skilið farangur eftir í skólanum á meðan veðrið er jafn slæmt og raun ber vitni. Á morgun, fimmtudag, hefst kennsla skv. stundaskrá í öllum 8. bekkjum. Viðbúið er að veður verði áfram slæmt og biðjum við foreldra um að fylgjast vel með fréttum á heimasíðu skólans og leggja mat á það hvort óhætt sé að senda börn í skólann.
3.  Ákvörðun um hvenær verður lagt af stað í skíðaferð 9. og 10. bekkinga verður tekin eftir hádegi. Fararstjórar eru að meta stöðuna í samráði við rútubílstjóra ferðarinnar. Fundur með nemendum í þessum ferðum hefur verið boðaður á sal skólans kl. 13.00 í dag. 
Þeir nemendur í 9. og 10. bekk sem ekki fara í skíðaferðir mæta að öllu óbreyttu í hópana sína í fyrramálið. Eins og áður segir er veðurspá slæm og foreldrar beðnir að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda börn í skólann.


Kveðja stjórnendur Garðaskóla og Garðalundar


Nemendur eru mættir í skólann og hafa það huggulegt á meðan beðið er eftir rútum. Hóparnir eru í biðstöðu og verið er að hafa ofan af fyrir krökkunum. Við fylgjumst með fréttum frá Vegagerðinni og Veðurstofu og farið verður af stað þegar færið er öruggt. Við uppfærum heimasíðuna reglulega í dag.


Kveðja,


fararstjórar
Til baka
English
Hafðu samband