Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar
20.11.2011 09:52
Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í skólanum að vanda. Eitt og annað var gert af því tilefni. Má þar nefna að nemendur fengu góða heimsókn tveggja rithöfunda sem lásu upp úr nýjum verkum sínum á bókasafninu. Þetta voru þær Jónína Leósdóttir og Arndís Þórarinsdóttir. Þær lásu upp úr nýútgefnum bókum sínum en þær skrifa báðar fyrir unglinga. Upplesturinn fór fram á bókasafni skólans þar sem þær lásu fyrir einn árgang í einu. Þeim var ansi vel tekið og litu nemendur á heimsókn þeirra sem skemmtilegt og áhugavert uppbrot.
Auk þess sem nemendur gerðu í kennslustundum í tilefni dagsins undirbjuggu þeir heimsóknir á stofnanir bæjarins. Í þeim heimsóknum lásu þeir m.a. sögur fyrir leikskólabörn, ljóð voru lesin í anddyri íþróttahússins, bæjarskrifstofunum, verslunum og fleiri stöðum í Garðabæ. Ekki má gleyma því að starfsmenn skólans fengu einnig að njóta upplestursins. Hópur nemenda spilaði á gítar og söng fyrir eldri borgara og leikskólabörn. Ánægja og gleði skein úr hverju andliti. Nemendum var alls staðar mjög vel tekið og fundu þeir velvilja og þakklæti fyrir uppákomurnar. Íslenskukennarar eru mjög stoltir af frábærum nemendum sínum sem eru sjálfum sér, forráðamönnum sínum og skólanum til sóma.

Myndir...

Til baka
English
Hafðu samband