Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gegn einelti í Garðaskóla

17.11.2011 14:23
Gegn einelti í GarðaskólaÍ Garðaskóla fer fram skipulögð vinna að því að bæta samskipti nemenda og vinna gegn einelti. Forvarnir og umræður um einelti eru fastur liður í lífsleiknikennslu skólans. Í daglegu skólastarfi er starfsfólk skólans alltaf að vinna gegn einelti með því að leiðbeina og hvetja nemendur til að hafa jákvæð samskipti sín á milli.
Námsráðgjafar hittu alla 8. bekkinga í byrjun september í smærri hópum og töluðu m.a. um bekkjaranda, mikilvægi þess að líða vel í skólanum og að vera góður bekkjarfélagi.

Í október fóru námsráðgjafi og deildarstjóri í 10. bekk í alla 9. og 10. bekki og vörðu einni kennslustund í að fræða um einelti. Nemendum var sýnd stutt glærusýning um afleiðingar eineltis eftir Guðlaugu Sveinsdóttur. Í framhaldi af því var rætt sérstaklega um félagslegt einelti og hvernig það birtist t.d. sem útskúfun, baktal og kjaftasögur. Í framhaldinu var rætt um áhrif eineltis á þolendur og gerendur. Nemendur voru m.a. hvattir til að vera ekki fordómafullir og leggja sig fram um að kynnast ólíkum nemendum í stað þess að flokka og dæma þá sem maður þekkir ekki. Í desember verður farið í 8. bekki með sama efni. Nemendaráðgjafar munu sjá um fræðsluna undir leiðsögn námsráðgjafa.

Áhugasamir nemendaráðgjafar í 9. og 10. bekk eru að skrifa handrit að myndbandi um einelti sem þau ætla að búa til og sýna yngri nemendum.

Þriðjudaginn 8. nóvember var ,,Dagur gegn einelti“. Nemendur vörðu einni kennslustund með kennurum og ræddu samskipti. Í framhaldinu settu þau sitt innlegg á vegg í Gryfjunni þar sem hugmyndum þeirra um jákvæð samskipti var safnað saman undir yfirskriftinni ,,Við viljum hafa jákvæð samskipti í Garðaskóla“. Verkefnið tókst vel og mátti sjá mörg jákvæð og uppbyggileg innlegg eins og ,,Engir fordómar“, ,,Brostu og þá færðu bros tilbaka“, ,,Ekki baktala“ og ,,Hrósum öðrum“.

Á næsta kennarafundi verða námsráðgjafar með innlegg um einelti fyrir kennara. Það er nauðsynlegt að halda umræðunni opinni og vinna markvisst að forvörnum gegn einelti bæði með nemendum og fullorðnum. Sú vinna þarf að fara fram bæði heima og í skólanum, þar sem börnunum er kennt og leiðbeint með að sýna hvort öðru kurteisi, virðingu og hlýju.

Til baka
English
Hafðu samband