Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Júdó í Garðaskóla

11.11.2010 10:28
Júdó í Garðaskóla

Þessa vikuna höfum við í hópunum ,,Að rækta líkamann" hér í Garðaskóla, fengið í heimsókn yngsta íþróttafélagið hér í Garðabæ, þ.e. Júdófélag Garðabæjar, en það hóf starfsemi sína s.l. septembermánuð. Formaður þess er Björn Halldórsson, og yfirþjálfari. Hann er einnig formaður júdódeildar ÍR, en hann hefur áralanga reynslu í þjálfun í öllum aldursflokkum og er með 4. dan, svarta beltið í júdó. Hann kom með tvo unga og efnilega júdómenn með sér til aðstoðar, þá Kjartan Magnússon, íslandsmeistara í unglingaflokki og Gísla Haraldsson íslandsmeistara í 15 – 16 ára. Þeir sýndu drengjunum hvernig júdómenn hita upp fyrir æfingar, auk þess að skýra út fyrir þeim hin ýmsu brögð, köst, læsingar og gólfglímu.

Farið var í það hvernig júdóvelta er framkvæmd og hvernig á að bera hendurnar fyrir sig þegar maður dettur eða er felldur í gólfið með tilheyrandi handarslagi. Að sjálfsögðu fengu nemendurnir að spreyta sig í allskonar æfingum og var ágætlega tekist á og svitinn spratt vel fram á þeim í átökunum. Í lokin var farið í nokkra teygjur sem notaðar eru í júdó og drengirnir kvaddir með viðeigandi júdókveðju, ásamt því að þeir fengu í hendur miða um æfingartíma hér í Sjálandsskóla en þar fara æfingarnar fram í Garðabæ.

Þess má geta að við fengum afnot af hinu glæsilega fimleikagólfi í nýja fimleikahúsinu og var aðstaðan frábær. Heimasíða júdófélagsins er jg.is fyrir þá sem hafa áhuga á nánari upplýsingum. Það er alltaf gaman að fá utanaðkomandi heimsókn í skólann og leyfa nemendum að kynnast öðrum greinum sem ekki eru kenndar við skólann, og þess má geta að nemendurnir stóðu sig með prýði.

Hér má sjá myndir frá tímanum

Kær kveðja, Ólafur Ág. Gíslason, íþróttakennari

Til baka
English
Hafðu samband