Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Dagur skólans fjör og frelsi!

11.11.2010 15:49
Dagur skólans   fjör og frelsi!

Það var aldeilis hátíðarbragur á starfi Garðaskóla fimmtudaginn 11.nóvember sem telst vera 44. afmælisdagur skólans sem hóf störf þennan dag árið 1966. Nemendur mættu prúðbúnir í hátíðarskapi og voru skreyttir viðhafnarborðum með viðeigandi virðingarmiklum áletrunum við hæfi og við komuna í skólann var þeim og boðið góðgæti sem kitlaði bragðlaukana í morgunsárið!
Kennsla var samkvæmt stundaskrá fyrstu tvær kennslustundirnar en næstu tvo tíma dvöldu nemendur með umsjónarkennurum sínum í heimastofum og þar héldu menn afmælisveislur með fjölbreyttu sniði – nokkrir bekkir buðu foreldrum að koma með og mörg ljúffeng kökusneiðin rann niður í maga – einnig vöfflur með rjóma og fleira.

Í lok fjórðu stundar þeystu nemendur úr stofum sínum og dönskuðu kongadans í halarófu niður í gryfju þar sem þeir skemmtu sér við að berja augum nýjustu bráðfyndna afurð stuttmyndahópsins sem menn hér á bæ telja að komi vel til álita við útnefningu Óskarsverðlauna á þessu ári!
Við lok sýningar marseraði hópurinn allur - 400 nemendur - út í íþróttahús þar sem boðið var upp á atriði, fjölbreytta leiki, fagra söngtóna, gítarspil, listdans, fimleika, koddaslag og uppistand!
Að því atriði loknu var haldin pizzuveisla þar sem bæði kom við sögu ”krap” og sætir drykkir! Dularfullur leynigestur steig síðan á fjalirnar og gladdi nemendur með nútímalegum söng.
Saddir og sælir héldu nemendur síðan í kennslustundir og luku skóladag sínum samkvæmt stundaskrá.

Það var hópur nemenda í 10. bekk sem hafði veg og vanda að undirbúningi hátíðarinnar með dyggri aðstoð félagsmiðstöðvarinnar. Öllum þessum aðilum og þeim sem fram komu eru færðar bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag til þessa dags sem hefur verið hefðbundinn ”Dagur skólans” í áratugi.

Til hamingjum með afmælið Garðaskóli – megir þú vaxa og dafna hér eftir sem endranær. Meðfylgjandi eru myndir frá hátíðisdeginum sem segja meira en mörg orð! 

Smellið hér til að sjá myndir.

Til baka
English
Hafðu samband