Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Jólagleði í Garðaskóla og Garðalundi!

11.12.2009
Jólagleði í Garðaskóla og Garðalundi!

Senn líður að langþráðu jólaleyfi nemenda sem hafa setið á skólabekk í Garðaskóla nær óslitið frá 24. ágúst sl. en síðasti skóladagur fyrir jól verður föstudaginn 18.desember. Skóli hefst síðan aftur samkvæmt stundaskrá 5.janúar 2010.

Nemendur þreyttu haustpróf í byrjun þessa mánaðar en í önnunum gáfu þeir sér þó tíma til að bregða á leik og fimmtudaginn 3.desember færðu nemendur skólann í jólabúning með heimatilbúnum skreytingum.
Þá var 10.bekkingum boðið til hátíðarkvöldverðar í skólanum föstudagskvöldið 4.desember. Þar skiptu nemendur og kennarar um hlutverk og kennarar og starfsmenn Garðalundar þjónuðu nemendum til borðs í boði Garðalundar og Garðaskóla en aðalrétturinn var gómsætur hamborgarahryggur og í eftirrétt rjómaís með heitri súkkulaðisósu. Á milli rétta skemmtu síðan hljóðelskir nemendur skólafélögum sínum með hljóðfæraslætti og söng. Mætingin var afar góð og hátíðarbragur yfir öllu borðhaldinu.  Hér má sjá myndir.

Hefðbundið jólaball Garðalundar verður þriðjudagskvöldið 15.desember og síðasta skóladaginn, föstudaginn 18.desember, eiga nemendur jólastund með umsjónarkennurum sínum og öðrum starfsmönnum skólans. Í gryfjunni verður hátíðardagskrá; nemendur þiggja veitingar: súkkulaði og piparkökur og nemendur munu einnig stíga á svið með ýmiss konar skemmtiatriði. Dagskrá föstudagsins er nánar auglýst hér.

Ragnar Gíslason, skólastjóri Garðaskóla

Til baka
English
Hafðu samband